Túlkun mín á frásögunni um Jakob og Esaú í 27. kafla 1. Mósebókar er öðruvísi en höfunda(r) Hebreabréfsins. Að mati höfunda(r) var það skammsýni Esaú sem svipti hann frumburðarréttinum.
Annars er umræðan um Esaú svo sem ekki þekktasti hluti þessa kafla, heldur umfjöllunin um agann.
Því að Drottinn agar þann sem hann elskar
og hirtir harðlega hvert það barn er hann tekur að sér.
Þetta er einn óþægilegasti texti ritningarinnar að mínu mati, enda hefur hann verið notaður til að réttlæta hvers kyns heimilisofbeldi um aldir. Hér er mikilvægt að gera greinarmun á einu, textinn er og hefur verið notaður til að réttlæta ofbeldi fremur en að hann sé forsenda eða ástæða heimilisofbeldis. Með þessu fyrirvara er ég ekki að reyna að gera lítið úr því hlutverki sem textinn hefur haft, en vona samt að við skiljum að ofbeldi á sér stað óháð því hvort þessi texti sé lesinn.
Erfiðleikar og óréttlæti hafa oft verið útskýrð með vísun til orða eins og „Guð leggur ekki meira á okkur en við ráðum við.“ Það er auðvelt að sjá endurróm af slíkri röksemdafærslu í þessum kafla. Guð spilar með okkur, reynir okkur og agar. Svo við verðum enn betri eða eins og segir í söngtextanum „What doesn’t kill you, makes you stronger.“
Vandinn við þessa guðfræði er því miður að hún er ekki endilega rétt, eins og má sjá til jafns í Jobsbók og í daglegu lífi okkar flestra. Þessi Guðsmynd kallar auk þess oft á Guð reiðinnar, Guð sem er eyðandi eldur.
Þessi guðsmynd verður sérlega skaðleg þegar hún er notuð af þeim sem betur standa. Þrátt fyrir að þessi Guðsmynd sé ekki endilega „rétt“, þá er hún skiljanleg og getur verið aðgengileg og aðlaðandi þeim sem upplifa ofsóknir og kúgun, óvissu og hættu. Þannig má velta fyrir sér við hvaða ytri aðstæður þetta leiðtogabréf er skrifað.