Þegar hér er komið sögu eru nærri 10 ár liðin frá herleiðingunni 597 f. Krist. Á ný situr Babýlóníuher um Jerúsalem. Jeremía er haldið föngnum í hallargarðinum. Að þessu sinni eru spádómar og hegðun Jeremía óljósari en áður. Á sama tíma og hann fjárfestir í landi í Júdeu, þá spáir hann fyrir um hrun Jerúsalem og algjöra eyðileggingu. En vonin er ekki langt undan.
Svo segir Drottinn: Eins og ég sendi þjóðinni þetta mikla böl sendi ég henni allt hið góða sem ég hét henni. Aftur verða jarðir keyptar og seldar í þessu landi sem þér segið um: Það er eyðimörk án fólks og fénaðar, seld Kaldeum í hendur. Akrar verða aftur keyptir fyrir fé, kaupsamningar gerðir, innsiglaðir og vottfestir…