Lasarus sagan virðist hafa vakið mikla athygli. Skyndilega er Lasarus líka orðin vandamál fyrir trúarleiðtoganna. Ef við gefum okkur í stutta stund að lærisveinninn sem Jesús elskaði, Lasarus og höfundur Jóhannesarguðspjalls séu einn og sami maðurinn, þá er óendanlega mikið skemmtilegra og mannlegra að lesa fyrri hluta 12. kaflans.
Lasarus er allt í einu stjarna. Við lesum um hvernig fólkið kom að sjá hann, alveg eins mikið og Jesú. Við sjáum líka reiðina í garð Júdasar, svikarans sem hlýtur að hafa verið þjófur. Við getum sett okkur í spor höfundar Guðspjallsins sem veltir fyrir sér hvernig Júdas hafi vogað sér að gagnrýna og skammast yfir því hvernig María fór með dýrmætu smyrslin. Ég get hins vegar vel séð að Júdas hafi nokkuð til síns máls. Er ekki ábyrgðarleysi að bruðla með það sem við höfum? Er ekki skammarlegt að eyða tugum milljóna í embætti vígslubiskups í Skálholti, þegar það er kreppa (og jafnvel þó það væri ekki kreppa)?
Jesús virðist hins vegar leggja áherslu á að vandamálið sé ekki táknræn athöfn Maríu heldur kerfisbundið og óleysanlegt vandamál misskiptingar. Við getum ekki hætt að gera okkur dagamun þar til misskipting heyrir sögunni til, því það mun ekki gerast á meðan við lifum.
—
Fögnuðurinn á Pálmasunnudag byggði á þörf fólksins fyrir að sjá tákn eða sannanir. Enn á ný minnir höfundur guðspjallsins okkur á að það er ekki málið. Það er sama hvað við sjáum mörg kraftaverk, ef við treystum ekki Guði, þá mun hræðslan við að verða samkunduræk alltaf stjórna hegðun okkar.
One thought on “Jóhannesarguðspjall 12. kafli”