Áfram bendir höfundur Jóhannesarguðspjalls á hræsni trúarleiðtoganna. Jesús gagnrýnir opinberlega tvöfeldnina í túlkun lögmálsins og alþýðan lætur sér vel líka. Þekking og skilningur Jesús á lögmálinu er áberandi í lýsingu guðspjallsins og við lesum m.a. hvernig Jesús burtskýrir þörfina fyrir umskurn drengja.
Umfjöllunin um umskurnina er reyndar gott dæmi um hvernig höfundur guðspjallsins virðist leggja Jesús orð í munn, enda var umskurn deilumál meðal kristinna eftir að Jesús var krossfestur og a.m.k. fram að Postulafundi í Jerúsalem 48 e.Kr. (sjá nánar um þann fund í skrifum um Postulasöguna). Það er því ekki líklegt að þessi meinta afstaða Jesús til umskurnar hafi almennt verið þekkt fyrr en eftir þann fund. Þegar svo haft er í huga að Jóhannesarguðspjall er skrifað seint á fyrstu öld, þá er ekki ósennilegt að þessi frásögn um gagnrýni Jesús á umskurnina hafi myndast í kjölfar fundarins 48 e.Kr. og birst í endanlegri mynd í guðspjallinu 30-40 árum síðar.
Þessi stöðuga gagnrýni Jesús veldur kergju og pirringi meðal trúarleiðtoga. Það sem meira er trúarleiðtogarnir láta það fara í sínar fínustu, hvernig Jesús nær til almúgans sem “veit ekkert í lögmálinu.” Í huga leiðtoganna er Jesús óþolandi populisti. Þegar Nikódemus leggur til að Jesús verði yfirheyrður áður en hann verði dæmdur, er Nikódemusi mætt með skætingi. Trúarleiðtogarnir finnst þeir vita betur, þeir nenna ekki að hlusta. Ég sé fyrir mér, hvernig þeir hafa talað sín á milli, hafandi setið slíka fundi sjálfur. “Þessi Jesús er örugglega psykopati.” “Sjáið hvernig hann flækist af einum stað á annan.” “Hann er ekki í neinu jafnvægi.” “Hann beitir ofbeldi.” “Hann er dónalegur.” “Hann er haldinn þráhyggju.” “Þessar hugmyndir hans um musterið eru paranójukenndar.”. “Hann ber ekki virðingu fyrir hefðum og venjum.” “Hann er alltaf fullur.” “Ég er viss um að hann misnotar aðstöðu sína.”
—
Á allt öðrum nótum. Það er skemmtilegt hvernig mistísk orð Jesús um krossfestingu og upprisu eru túlkuð sem áætlun Jesús um að fara í trúboðsferð og boða fagnaðarerindi í díasporunni og jafnvel til Grikkja. Þannig er mistúlkunin látin minna á að orð Jesús er ætlað öllum, en ekki bara útvöldum.