Jóhannesarguðspjall 1. kafli

Jóhannesarguðspjall er fyrsta guðspjallið sem ég glími við í þessum blogglestri. Áður en við hellum okkur í textann er rétt að taka fram að Jóhannesarguðspjall er yngst af guðspjöllunum fjórum. Það er kannski auðveldast að sjá með því að líta á upphaf hvers Guðspjalls fyrir sig. Við sjáum nefnilega glöggt hvernig staða Jesús þróast í hugum kristinna þegar líður á. Elsta guðspjallið, Markús, horfir til skírnar Jesús þegar hann er um þrítugt og markar hana í einhverjum skilningi sem komu Messíasar (meira um það í umfjöllun minni um Markús), Matteus og Lúkas eru uppteknir af því að Jesús hafi verið Messías strax frá fæðingu (nú eða getnaði öllu heldur). Jóhannes stígur hins vegar skrefinu lengra og heldur því fram að:

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er.

Jesús er þannig ekki Messías frá fæðingu líkt og hjá Matteusi og Lúkasi. Fæðingin er einungis holdtekja þess sem alltaf hefur verið. Frásögn Jóhannesarguðspjalls um skírnina er einnig um margt ólík frásögn Markúsar. Í Jóhannesarguðspjalli er skírnin staðfesting á því sem er, en ekki upphaf á einhverju nýju.

Það má segja að þessi þróun sem við sjáum í skrifum guðspjallana hafi síðan haldið áfram, m.a. í hugmyndum sumra gnóstíkera og hjá mönnum eins og Markíon sem ganga það langt að hafna guði Ísraelsmanna, sköpunarguðinum og skilja Jesús einan eftir á toppnum. Segja má að þessi þróun til að styrkja guðsdóm Krists hafi haldið áfram fram á fjórðu öld, fengið bakslag í andsvörum Ariusar og tekið á sig endanlega mynd við samþykkt Níkeujátningarinnar. En auðvitað er hér litað með mjög breiðum pensli yfir 300 ár og fjölbreyttan menningarheim.

Áhrif “Aðeins Jesús” dýrkunar og höfnunar á eða skeytingarleysi um hinar persónur Guðdómsins má auðvitað finna víða í kirkjusögunni síðar. Þetta má sjá í skrifum Lúthers, einhver gæti bent á NT áherslu Gídeonmanna (sem er e.t.v. ekki sanngjarnt), fjölmargir söfnuðir skíra ekki í nafni þrenningarinnar heldur eingöngu í nafni Jesú Krists og svona gæti ég haldið áfram lengi. En verkefnið er víst 1. kafli Jóhannesarguðspjalls. Upphaf Jóhannesarguðspjall bíður ekki upp á “aðeins Jesús” dýrkun, heldur Jesús og YHWH, einn en ekki eins.

Í lok fyrsta kafla heyrum við síðan lýsingu á köllun lærisveinanna. Jesús Jóhannesarguðspjalls er óumdeildur karísmatískur leiðtogi. Þeir sjá hann og fylgja. Sjálfsöryggið skín í gegn, allt verður gott.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.