Ég hyggst byrja lesturinn á bókinni um Rut, sem var bæði sönn og góð. Alla vega ef eitthvað er að marka sunnudagaskólasöngva. Bókin byrjar af krafti, enda stutt. Við höfum þjóð sem er stýrt af dómurum og er að ganga í gegnum efnahagshrun. Það er hungursneyð og fjögurra manna fjölskylda, faðir, móðirin Naomi og tveir synir pakka saman og flytja úr landi. Þetta er allt í fyrsta versinu.
Við lærum að drengirnir aðlagast vel og eignast eiginkonur frá nýja landinu. Maðurinn er fyrirvinna og lífið virðist ganga vel. Þar til fyrirvinnan deyr og synirnir báðir. Skyndilega er félagslega netið horfið, Naomi orðin ekkja, ein í ókunnu landi. Eina tengingin sem hún hefur eru tengdadæturnar tvær. Þær eru netið hennar, en hún virðist ekki telja sig mikilvægan part af þeirra neti, hún er ein, eða það upplifir hún. Eina leiðin er því heim, til baka í fortíðina, leitast við að aðlagast samfélagi sem hún einu sinni þekkti, en er vart hennar lengur og leitast við að byggja upp á ný horfin tengsl.
Þá kemur fyrsta sveigjan á frásöguna. Rut tilkynnir tengdamömmu að hún sé ekki ein, Rut ætli að koma með til gamla landsins, vera fjölskylda með henni og styrkur í nýjum aðstæðum.
Að flytja af einum stað á annan er ekkert grín í dag þrátt fyrir Facebook og Skype. Að fara burt hér áður fyrr var að deyja þeim sem eftir sátu. Þannig tíðkaðist í ákveðnum hópum á 18. og 19. öld í BNA að halda jarðarfararathöfn fyrir kristniboða sem héldu til Afríku. Fjölskyldan vissi sem var að viðkomandi kæmi aldrei til baka. Á sama hátt var Naómi dáin í huga fólksins í smábænum Betlehem. Endurkoman var þannig í senn uppgjöf og upprisa Naómi. Það er þess vegna sem Naómi talar um að taka sér nýtt nafn þegar hún snýr til baka.