Kirkjan á Íslandi virðist um þessar mundir vera í mikilli varnarbaráttu. Ef mark er takandi á því sem ég heyri frá vinum og kunningjum á Íslandi, innan og utan kirkju, þá eru margir söfnuðir í mikilli krísu vegna þrengri fjárhags enn áður. Ein birtingarmynd þessarar krísu var aukakirkjuþing í ágúst, þar sem hugmyndum var varpað fram um lausnir. Hins vegar má öllum vera ljóst að þær lausnir sem voru viðraðar voru ekki hugsaðar til framtíðar. Þessi krísa verður ekki leyst með tímabundinni lántöku, flötum niðurskurði á Biskupstofu, með fækkun námsleyfa eða með sölu fasteigna. Enda er ekki hægt að vænta þess að hagur kirkjunnar batni á ný ef haldið verður áfram með núverandi tekjumódel.
Það er því mikilvægt að hjálpa söfnuðum að endurskoða starfsemi sína og stefnu sem allra fyrst til að takast á við nýtt ástand. Slík endurskoðun á starfsemi og stefnu einstakra safnaða getur ekki eingöngu farið fram miðlægt á Biskupstofu, heldur þarf að eiga sér stað á vettvangi sóknanna og taka tillit til þeirra aðstæðna sem ríkja á hverjum stað.
Ég hef velt fyrir mér hvort það séu forsendur til þess að bjóða sóknarnefndum/söfnuðum ráðgjöf og samtal um viðbrögð og framtíðarsýn, einhvers konar “betur sjá augu en auga” samstarf, þar sem farið er á faglegan hátt yfir stöðuna, velt upp spurningum um framtíðina og lagt á ráðin um næstu skref.
Í aðstæðum þar sem kvíði og óvissa ríkir getur verið vænlegt að fá utanaðkomandi ráðgjöf, sem er ekki innvikluð í fyrri ákvarðanir og getur horft gagnrýnum augum á safnaðarstarfið og gildi einstakra þátta þess. Auðvitað er æskilegt að slík ráðgjöf sé veitt af einstaklingum sem hafa bæði þekkingu á safnaðarstarfi, skilning á fortíðinni og ekki síst guðfræðilegan skilning á margbreytilegu eðli og hlutverki kirkjunnar, jafnt í trúar- og menningarlegum efnum.
Ég velti fyrir mér hvernig best er að bjóða slíka ráðgöf á Íslandi. Ég fékk djáknavígslu til starfa hjá Æskulýðssambandi kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum 1997. Ég var framkvæmdastjóri Grensáskirkju á árunum 2003 til 2005 og tók þar virkan þátt í að endurskoða safnaðarstarfið og kom kröftulega að endurskipulagningu fjármála sóknarinnar. Undanfarin fjögur ár hef ég verið við framhaldsnám í Bandaríkjunum. Ég lauk meistaraprófi í leikmannafræðum (Master of Lay Ministry) frá Trinity Lutheran Seminary árið 2008 með áherslu á leiðtogakenningar og safnaðarstarf og nú í maí lauk ég framhaldsgráðu, STM (Master of Sacred Theology), þar sem ég rannsakaði aðferðir til að meta gæði/árangur í safnaðarstarfi. Þess utan hef ég, síðan ég flutti til BNA, lokið þjálfun sem ráðgjafi hjá Healthy Congregations, Inc.
Ég hef fræðilegar forsendur til að vera sóknum innan handar í stefnumótunarvinnu. Ég hef dýrmæta reynslu af því að ganga í gegnum breytingar með söfnuði í krísu. Ég hef þekkingu á starfi kirkjunnar í tveimur heimsálfum. En þrátt fyrir að hafa starfað um hríð á auglýsingastofu við að sannfæra fólk um að gera eitt en ekki annað, þá hef ég takmarkaðar hugmyndir um hvernig hægt er að sannfæra sóknarnefndir um að takmörkuðum fjármunum þeirra sé vel varið í að ráða (tímabundið) til starfa auka augu. Þrátt fyrir að ég sé þess fullviss og hafi reynslu af því að vönduð ráðgjöf geti skilað til baka á mjög skömmum tíma bæði fjárhagslegum hagnaði og auknum gæðum safnaðarstarfs.
(Upphaflega birt á ispeculate.net)