Það gekk mun verr að draga úr veflestri í sumar en ég ætlaði. Auðvelt væri að afsaka það að skjótast á síður hinna og þessa, enda alltaf eitthvað áhugavert í trúmálaumræðunni eða nauðsynlegt að fylgjast með krepputali landans enda erum við hjónin háð gengissveiflum. Veruleikinn er hins vegar sá að ég man mjög fátt af því sem ég varð að lesa.
Þannig fólst veffríið mitt aðallega í samdrætti í skrifum, þó ég gæti haldið því fram að lestur hefði eitthvað minnkað. Eftir þessa sumarreynslu hef ég því ákveðið að taka ekki upp notkun á rss-lesara á ný, heldur fylgjast með umræðunni á vefsvæðum á óskipulagðan hátt líkt og í sumar.
Ég hyggst heldur ekki opna fyrir umræður á vefjum mínum að jafnaði, enda lít ég á þetta sem mitt sápubox frekar en kaffihús. Hvort ég breyti þessu fyrir einstakar færslur mun hins vegar koma í ljós.
Meðan ég man. Í samræmi við þá fullyrðingu mína að launamál einstaklinga og skattgreiðslur séu ekki einkamál, þá er sjálfsagt að taka fram að ég greiddi enga skatta á síðasta ári og heildartekjur mínar á Íslandi og í BNA námu alls 26.908 krónum á mánuði.