Þegar við bjuggum í Danmörku fyrir 7 árum voru tekjur mínar að mestu í íslenskum krónum og því fékk ég nokkurn áhuga á gjaldeyrisviðskiptum, enda gerðist það á þessum tíma að greiðslu seinkaði frá einum viðskiptavini mínum og þegar hún loksins barst, 1 og 1/2 mánuði of seint hafði kaupmáttur hennar í Kaupmannahöfn rýrnað um rúm 20%. Þetta var enda á þeim tíma sem $1 fór úr 75 krónum í 110 krónur á nokkrum mánuðum. Óstöðugleiki gengisins gerði okkur erfitt fyrir og fór svo að við fluttum heim í dýrtíðina og ég hætti gjaldeyrispælingum.
Enn á ný snýst líf mitt um gjaldeyri. Þegar við seldum íbúðina okkar og veltum við þónokkuð fyrir okkur að millifæra hagnað sölunnar til BNA, enda var gengið á þeim tíma að gæla við 60 krónur fyrir hvern $1. Þar sem við hins vegar ætluðum ekki að nota hagnaðinn hér, heldur ávaxta hann hurfum við frá þessum hugmyndum og settum peningana inn á lausan óverðtryggðan bankareikning (við erum áhættufælin þegar kemur að peningum). Á þessum tíma hefur reikningurinn borið að jafnaði 12%+ vexti. Við höfum síðan lagt allar tekjur frá Íslandi inn á reikninginn og millifært eftir þörfum hingað til BNA eða tekið upp íslensku greiðslukortin þegar gengið hefur verið einstaklega hagstætt.
Við ákváðum hins vegar nú í lok júlí að millifæra aðeins umfram þarfir, einfaldlega þar sem gengið er óvenjuhagstætt okkur í BNA og um leið ákvað ég að skoða hvernig þetta fyrirkomulag hafði komið út fjárhagslega. Sér í lagi þar sem sérfræðingur minn í hagfræði benti mér á í júlíbyrjun, að líklegast hefðu okkur orðið á mistök, með að færa peninginn ekki á sínum tíma. [Leiðrétting: Sérfræðingurinn benti reyndar á að stærstu mistökin hefðu verið að selja íbúðina, en ekki leigja út, þar sem íbúðarverð hefur haldið áfram að hækka, þvert á spár haustið 2005. En hins vegar hefði slík hugmynd á sínum tíma og traust á áframhaldandi þenslu á íbúðarmarkaði verið alvöru “trúarstökk”, sem við vorum ekki til í á þeim tíma.]
Helstu niðurstöður athugunar minnar var að við höfum fært pening á milli á gengi frá 59,56 krónur og upp í 70,95 krónur. Meðalgengi sem við höfum keypt á er 66,04 krónur. Ef við hefðum fært allt í upphafi hefði gengið verið 61,37 krónur. Við höfum því borgað að meðaltali yfir 1,5 árs tímabil 8% hærra fyrir dollarann með því að nota “demand”-aðferðina fremur en að færa allt í upphafi. Vextir hér í BNA eru mjög óverulegir á sparnaðarreikningum, hugsanlega 2,5%, ef við hefðum beytt miklum fortölum. Hins vegar hafa peningarnir borið rúmlega 12%+ vexti á Íslandi á þessum tíma og því lítur út fyrir að ákvörðunin í upphafi hafi ekki verið mjög röng/rétt, þó það þurfi mun flóknari útreikninga til að sjá hver hagnaður/tapið hafi reynst.
Hins vegar er óvissan nú líkast til meiri en áður og ljóst að ef $1, tekur sér langtímabústað ofan við 72 krónur eða hærra, þá bæta íslensku vextirnir það ekki upp. En ég treysti því að sérfræðingar Seðlabankans haldi áfram að nota vexti til að þvinga verðmæti krónunnar upp á við.