Ég átti áhugavert samtal fyrir þremur dögum, en það hófst á því að einn besti vinur minn hélt því fram að uppstigningin hefði ekki átt sér stað, því hún gerði ráð fyrir töfrum (e. magic). Allir vissu að töfrar væru ekki til, ergo engin uppstigning. Á sama hátt hélt manneskjan áfram, er ljóst að vínundrið er tilraun til að útskýra fremur einfaldan atburð, Jesús einfaldlega reddaði víni í veisluna á hefðbundin hátt, með því að kaupa það. Umræðan barst að fiskunum og brauðunum og ég spurði hvort ekki væri möguleiki á að fórn litla drengsins hefði einfaldlega kallað fram það besta í viðstöddum og allir hefðu tekið það nesti sem þeir höfðu og einfaldlega gefið með sér. En einhvern tímann sagði góður maður að það væri meira kraftaverk að fá fólk til að deila með öðrum, en að nota fimm brauð og tvo fiska til að metta 5.000. Viðmælandi minn og vinur, gat ekki hafnað svo veraldlegri útskýringu, en taldi líklegra að Jesús hefði einfaldlega sent einhvern í búð, eða einfaldlega farið sjálfur. Við ræddum þetta nokkuð, upprisan var nefnd og fleiri atburðir guðspjallanna. Ég hélt á lofti hugmyndinni að Skapara alls væru engir hlutir um megn, en mátti mín ekki mikils í umræðunni. Þegar umræðan hafði gengið nokkra stund, líkt og borðtennisbolti, sagði þessi ágæti vinur minn eitthvað á þessa leið.
Það er fyndið að alltaf þegar Jesús fór út í búð, héldu allir að það væri kraftaverk.