Fermingartollurinn

Ég er stundum svolítið lengi að tengja. En þar sem ég var að taka til í glósunum mínum áðan, flaug mér í hug umræða sem ég rak augun í skýrslu af aðalfundi Prestafélags Íslands, þar sem rætt var um fermingartollinn og hugmyndir um að greiða hann beint til presta úr Héraðssjóði.  Hugmynd sem er hreint afleit og fáránleg í alla staði. Ég ætla svo sem ekki að útskýra að öllu leiti hvers vegna hugmyndin er vitlaus, en velta aðeins fyrir mér vandamálinu eða öllu heldur vandamálunum sem eru tvíþætt.

Annars vegar er um að ræða vandann við aukaverkin. Um leið og kirkjan er í einhverjum skilningi söfnuður, samfélag trúaðra, þá er ójafnvægi á milli safnaðarlífs og einkaathafna. Þessar einkaathafnir hafa í gegnum árin verið skilgreindar utan hefðbundins starfs presta og þannig greint enn skýrar á milli þeirra og safnaðarstarfs. Þetta verður ekki lagfært með því að nýr aðili greiði fyrir þessar athafnir. Hér þarf nýjan hugsunagang í kirkjufólk. Þannig þarf að færa álagið af prestum vegna þessara athafna eftir því sem kostur er. Þar er ég að sjálfsögðu að vísa til fermingarfræðslunnar sem þarf að vera á hendi miklu fleiri en nú er. Hér er ég ekki nauðsynlega að tala fyrir ráðnu fagfólki á sviði fermingarfræðslu, heldur eru tækifæri fyrir smáhópa með sjálfboðaliðum, hluti fermingarbarna getur unnið með kvenfélaginu, djáknanum (ef slíkur er til staðar), organistanum, kórnum, matráðnum, meðhjálparanum, sóknarnefndarfólki eða hverjum sem verða vill að verkefnum. Með þessu móti er tengingin við söfnuðinn önnur en bara við prestinn. Hvað með áhugasama foreldra, má ekki bjóða þeim að koma og tala um sérsvið sitt og nota tækifærið til að tengja það trúarlegum hugsunum. Með því að færa álagið af prestinum og á aðra ættu kröfurnar um aukagreiðslur að breytast, ef ekki kæmi til annar þáttur vandans.

Í prestastétt virðist vera í gangi hugmynd um að allir séu jafnir. Þannig er talið mikilvægt að allir prestar hafi sömu grunnlaun enda er það rétt. Hins vegar hafa sumir svo rosamikið að gera. Til að mæta því, eru aukaverkagreiðslur ein leið, ásamt álagseiningum. Þannig fær presturinn með 300 sóknarbörn sömu laun og sá sem hefur 15.000. Síðan bætist einfaldlega við álagseiningar á þann með stærri sóknina og aukaverkagreiðslur fyrir athafnir. Þrátt fyrir þetta finnst einhverjum prestum þeir ekki hafa nægilega há laun, þeim finnst vandræðalegt að innheimta aukaverkagreiðslur og síðast en ekki síst finnst þeim Jesús hafa verið ósanngjarn og hafa haft rangt fyrir sér þegar hann sagði söguna í Mt 20.1-16.

Ef vandamálið er innheimta aukaverkagreiðsla og of lág laun, þá er auðvitað hentugasta leiðin til lausnar að finna leið til að fá aukaverkagreiðslurnar sjálfkrafa inn á reikning.  Gallinn er hins vegar sá að með þeirri leið skapast tvö vandamál. Opnað er fyrir þann möguleika að sóknargjöld séu notuð til að greiða hluta launa presta, sem er mjög óheppilegt, ég vil ekki segja ólöglegt en alla vega siðlaust og opnun þess möguleika mun leiða til fjölmargra vandamála í framtíðinni. Hitt er að festur er í sessi launamunur milli presta í smærri og stærri sóknum. Launamunurinn felst í viðbótargreiðslum framhjá hinu hefðbundna launakerfi og verður því nánast ósýnilegur. Þetta er þvert á hugmyndir um
jafnlaunastefnu presta.

Með öðrum orðum, mér sýnist að hugmyndir um greiðslu fermingartolls úr héraðssjóðum sé óæskileg meðal annars af eftirfarandi ástæðum:

  • Viðheldur aðgreiningu safnaðarstarfs og einkaathafna.
  • Viðheldur fermingarfræðslunni sem einkamáli prestsins og gerir söfnuðinn ekki samábyrgan í fermingarfræðslunni, sem að mínu mati ætti að vera forgangsverkefni.
  • Ræðst gagn jafnlaunastefnu presta og hafnar Mt 20.1-16.
  • Opnar fyrir greiðslur til presta af sóknargjöldum.

Nú hef ég tjáð mig um þetta, og get snúið mér á ný að tiltekt í glósunum mínum.

12 thoughts on “Fermingartollurinn”

  1. Stóra vandamálið er ekki að prestar fái greiðslur fyrir verk, sem eru skilgreind aukaverk og eru greidd af verkbeiðanda, heldur að tillagan, eins og hún var kynnt, gerir ráð fyrir að héraðssjóður taki sér stöðu verkbeiðanda og greiði verkið fyrir hann. Miðað við að um 75-85% aukaverkagreiðslna innheimtast, má gera ráð fyrir að sátt ríki um þær. Lausnin er þá sú að héraðssjóðirnir innheimti aukaverkin, miðað við fermingarskýrslur og greiði prestum, annað hvort áður eða eftir að þau hafa innheimst.

    Hinn vandinn er sá sem þú bendir á, sem er að fleiri ættu að koma að fermingarundirbúningnum. Eðlilegast væri í þeim tilgangi, að kirkjan verði sýnilegri í honum, að kirkjan stofnaði fermingarskóla, ef ekki í hverri sókn, þá a.m.k í hverju byggðalagi. Hvernig svoleiðis lítur út, og hvað það gerir, er opin spurning. Eina útfærslu finnurðu á þessum vef, http://nam.astjarnarkirkja.is

  2. Hvernig væri að hafa bara einhver föst laun hjá prestum (hálfa milljón á mánuði?) og ef þeir vilja meira, þá verður þeim bara vísað á þetta vers?

  3. Carlos, ég er ósammála þér með að aukaverk séu ekki vandamál. Ég held að þau séu ekki vandamál fyrir verkbeiðanda, eins og þú bendir á, enda borga flestir og finnst það ekkert mál. Vandi aukaverkagreiðslanna er í munum huga tengdur trúverðugleika kirkjunnar, í tilfelli skírna og eins auka greiðslurnar á erfiðleika við að bæta gæði í fermingarstarfi. Vandamál aukaverkanna er þannig spurning um gæði og trúverðugleika kirkjunnar fremur en vandi vegna fátækra verkkaupa.

  4. Hjalti! Prestarnir eru nú þegar með hálfa milljón á mánuði (400.000 fast og 100.000 auka) og ætti það nú að vera nóg fyrir frekar létt og löðurmannslegt starf.
    Að auki fá þeir greitt fyrir hvert viðvik sem þeir gera: skírn, fermingu, hjónavígslu, útfarir, auk allra þeirra vottorða sem þeir kannski þurfa að gefa út (skilnaðarpappíara osfrv.).
    Þetta gerir eflaust 100.000-200.000 kr á hinn almenna prest. Sumir prestar eru með um 100 fermingarbörn sem gerir um 900.000 á ári svo dæmi séu tekin. Aðrir sitja á laxveiðijörðum sem gefa þeim minnst 5 milljónir á ári, enn aðrir með dúntekju sem gefur þeim annað eins (og einn er með hvot tveggja!).
    Og Matti, laun presta á Íslandi eru amk 100.000 hærri á mánuði (100.000-200.000) en í Noregi og Svíþjóð þar sem ég þekki til. Svo það er spurning hvorum íslenskir prestar þjóna: Guði eða Mammon.

  5. Hver er gallinn við að prestar fái laun úr sóknargjöldunu fyrir aukaverk sem eru þjónusta fyrir sóknarbörnin? Ég spyr útaf hverju mega sóknargjöldin mín ekki frekar fara í að borga þá þjónustu sem ég fæ í sóknarkirkjunni minni frekar en að þeim sé eytt í rándýr orgel og aðra vitleysu.
    Ef kerfið væri þannig að ég fengi mína prestþjónusut ókeypis í minni sóknarkirkju þá hefði það marga kosti. Fyrir það fyrsta þá myndi það líklega auka sóknarvitund fólks en er það ekki sem allar presta dreymir um :). Fólk mundi í minna mæli fara útum allar trissur í leit að kirkju fyrir athafnir í annari sókn og síðan velja prestin úr þeirri þriðju. En ef fólk gerði það þá væri það eðlilegast að það þyrfti að borga sjálft fyrir það.
    Þetta hefði líka þann kost að ef til þess kemur einhvern tíman (sem ég vona) að ríki og kirkja verði betur aðskilin þannig ekki verður til trúmálaskattur (fólk þarf ekki að borga til háskólans ef það er utan trúfélaga) þá sér fólk sér hag í því að vera skráð í þjóðkirkjuna.
    Ég hef svo sem ekki velt þessu of mikið fyrir mér og sé því bara kosti þess að sóknargjöldin fari í þjónustu frekar en steinsteypu og pípur. Hver eru ókostirnir og siðleysið? Hver er t.d. ókosturinn við að einhver launamunur verðir milli presta í lítilli sókn og stórri. Verður munurinn ekki bara að annar er vel launaður og hinn mjög vel launaður vegna þess að þeir vinna einmitt mismikið?

  6. Ég er sammála þér að flestu leiti Gísli. Gallinn er hins vegar að þú ert að tala um allt annars konar kerfi enn við búum við í dag. Kerfi sem væntanlega kemur með aðskilnaði ríkis og kirkju. En meðan sá aðskilnaður er ekki og á meðan laun presta eru í einum farvegi og sóknargjöld í öðrum þá er sú leið að nota sóknargjöld á þennan hátt ekki fær.

    Uppbygging sóknarnefnda víða er þannig að prestur fær fólk í nefndirnar, í gegnum vináttu eða kunningsskap. Þannig eru nefndirnar á stundum fremur stuðningur við starf prestsins en aðhald, enda er presturinn ekki skilgreindur sem starfsmaður þeirra. Þetta býður að sjálfsögðu hættunni heim, þar sem greiðslur vegna sumarleyfisferða eru skilgreindar sem námskostnaður í bókhaldi safnaðar, eða hvers kyns aðrir bókhaldsgaldrar birtast.

    Varðandi jafnlaunastefnu, þá er það spurning um sjálfskilning stéttarinnar, fremur en allt annað.

  7. Ég skil ekki hvernig það, að prestar fá sérstaklega greitt fyrir aukaverk, leti þátttöku safnaðar í málaflokkinum. Ætlast er t.d. til þess að prestur sinni barnastarfi í mörgum söfnuðum. Það sér hinsvegar hver maður, að ef söfnuðurinn leggur ekki til starfsfólk með prestinum, þá er barnastarfið dæmt til að mistakast. Enda er það rætt í námsskrá fermingarstarfanna, að söfnuður leggi til fólk, hugmyndir (og fjármagn?) í málaflokkinn.

  8. Talandi um laun presta – hálf milljón á mánuði fyrir ótakmarkaðan en sveigjanlegan vinnutíma, 50 – 70 tíma á viku – miðað við samtal sem ég átti við ungan meiraprófsbílstjóra um laun hans (400þús fyrir 55 – 60 tíma – frí tvo daga um helgar) þá sýnist mér presturinn ekki vera ofsæll af launum sínum.

  9. Carlos, það að verkbeiðandi greiði prestinum fyrir að sinna fræðslunni ýjar að því að fermingarfræðslan sé ekki á könnu annars en prestsins. Þannig horfa margar sóknarnefndir svo á að með því að leggja til aðstoð við fermingarstörf sé EKKI verið að byggja upp söfnuðinn heldur létta undir með prestinum í verkefnum sem hann (presturinn) hefur þegar fengið greitt fyrir. Hvað stendur í einhverri bók sem fátt sóknarnefndarfólk hefur lesið, breytir engu um tilfinningu þá tilfinningu.

    E.t.v. þyrfti aukaverkagreiðsla ekki að letja söfnuðinn til þátttöku, en hún gerir það að mínu mati. Mati sem byggir á aðkomu að fermingarstarfi fjölmargra safnaða á höfuðborgarsvæðinu síðustu 10 ár.

  10. Hjalti! Prestarnir eru nú þegar með hálfa milljón á mánuði (400.000 fast og 100.000 auka) og ætti það nú að vera nóg fyrir frekar létt og löðurmannslegt starf.

    Ég vissi það auðvitað.

    En það er hárrétt að þessi laun eru í raun skammarlega lág, það er ekki eins og þetta sé hugsjónarstarf. Hvaða upphæð hefði Jesús sætt sig við?

  11. En fá prestar 55.000 krónur fyrir að sitja mánaðarlega fyndi sóknarnefndar og héraðsfund? Sbr þetta:

    Þá var vakin athygli á því að Kjaradómur hefði nýlega úrskurðað Biskupi Íslands mánaðarlega 55.000 krónur fyrir að sitja mánaðarlega fundi kirkjuráðs og væri eðlilegt að kjaranefnd úrskurðaði prestum samsvarandi upphæð vegna skyldu þeirra til að sitja mánaðarlega fundi sóknarnefndar og héraðsfund. Á sömu forsendum væri eðlilegt að prófastar fengju umbun fyrir að sinna sérstökum fundaskyldum sem þeir hefðu vegna prófastsstarfa sinna. a

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.