Nú er lokið þessari kosninganótt og nýliðun á þingi hlýtur að teljast óvenjumikil, en 24 ný andlit munu birtast á þingi í haust skv. Visi.is. Það sem er miður jákvætt er þó útkoma kvenna.
Framsóknarmenn mæta með 2 konur af 7 þingmönnum (29%), og nýju þingmennirnir 2 eru karlar.
Sjálfstæðisflokkurinn mætir með 8 konur í hópi 25 þingmanna (32%), og nýju þingmennirnir eru 10, þar af 5 konur.
Frjálslyndir mæta kvenmannslausir, 4 saman í hóp. Nýliðarnir í þeirra hópi eru 2.
Samfylkingin mætir með 6 konur í 18 manna hópi (33%). Nýliðun þar eru 6 þingmenn, þar af 1 kona.
Vinstri-grænir mæta með 4 konur af 9 þingmönnum (44%). Nýliðun eru 4 þingmenn, þar af 2 konur.
Konur eru því skv. þessu 20 af 63 þingmönnum, eða 32% af heildarfjölda þingmanna. Þegar litið er til nýliðunar þá kemur í ljós að af 24 nýjum þingmönnum eru konurnar 8 eða 33% af heildarfjölda nýrra þingmanna.
Hvað segja þessar tölur okkur? Líklega aðeins það sem við vissum flest. Sú staðreynd að ISG er formaður Samfylkingarinnar hefur gert flokkinn værukæran í jafnréttishugsjón sinni. Sjálfstæðisflokkurinn reynir af mætti að laga sig að pólítískri rétthugsun. Frjálslyndi flokkurinn er allt annað en frjálslyndur, Framsóknarflokkurinn er svo lítill að niðurstaðan er innan skekkjumarka (að sögn konunnar minnar).
Eini flokkurinn sem virðist hafa unnið heimavinnuna sína þegar kemur að stöðu kynja í pólítík er að þessu sögðu Vinstri-græn og hlýtur það að kalla okkur öll til umhugsunar að gamall, þumbaralegur kommúnisti og bóndasonur úr Þistilfirði sé orðinn “poster-child” fyrir kvenréttindi.