Í rakarastólnum

Þegar ég settist í stólinn hjá rakaranum mínum í morgun, var ég fljótur að tengja hvert umræðuefnið var. Sjálfsvíg eru nefnilega ekki daglegur veruleiki íbúanna í Bexleybæ. Hann var nemandi í Capital, á síðasta ári.
Rakarinn sem stóð við stólinn minn sagði að hann hefði komið á tveggja vikna fresti og látið snyrta hárið mjög stutt, enda verið hermaður og reglurnar væru strangar fyrir krakkana sem láta herinn borga námið, líka hvað varðar hárvöxt. “Annars,” bætti rakarinn við, “ákvað strákurinn að leyfa hárinu að vaxa aðeins meira fyrir c.a. 1 ári síðan, enda var hann að skjóta sér í einhverja stelpu þá.”
Þegar spjallið gekk áfram, fékk ég að heyra að drengurinn sem tók sitt eigið líf, átti að útskrifast eftir rúmar tvær vikur, og í vikunni þar á eftir beið ástandið í Baghdad. Hann átti að leiða hóp fótgönguliða í Íraksstríðinu. Einn rakarinn á stofunni, sagði reiður að e.t.v. hafi drengurinn fremur viljað taka eigið líf en annarra, frekar deyja fyrir eigin hendi en hendi Bush. Ég ákvað að þegja, það er ekki við hæfi að tjá sig um stríð sem manns eigin leiðtogar styðja, svo fremi sem börn annars fólks láti lífið.
Sjálfsvíg eru ekki tíð í Bexleybæ, en sjálfsagt eru enn færri sem senda börnin sín til Baghdad. Reyndar er Matt, bæjarstjóraframbjóðandi, hermaður í hlutastarfi og fer reglulega niður til Virginíufylkis til að stýra hópi lögfræðinga sem annast erfðaskrárgerð hermannanna sem eru á leið í óvissuna.
Ungi drengurinn sem hugsanlega átti líf framundan, átti sjálfsagt einhvern tímann draum um framtíð, þar sem stóll rakarans beið ekki á tveggja vikna fresti til að uppfylla kröfur hersins en það varð aldrei. Hann komst aldrei til Virginíufylkis til að gera erfðaskránna sína með aðstoð Matt, hans tími kom fyrr. Nafnið hans verður aldrei sett á minnismerki um látna hermenn í Washington, hann er ekki hluti tölulegu upplýsinganna um mannfall Bandaríkjamanna vegna stríðsins í Írak. En hann er örugglega ekki sá eini sem lætur lífið á þennan hátt, nokkrum vikum áður en hópurinn hans Matt skrifar upp hinstu óskirnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.