Rithöfundurinn Bruce McMillan heimsótti Cassingham Elementary School í dag. Skólastjórinn hringdi í mig í morgun og skyldi eftir skilaboð hvort mig langaði ekki að vera viðstaddur og spjalla við manninn. Svo ég mætti.
Það verður að segjast eins og er að McMillan kann að tala við krakka. Hann sýndi myndir og spjallaði í rúmlega 40 mínútur við rúmlega hundrað, 5-8 ára krakka sem sátu á gólfinu á bókasafninu. Hann hélt frábærri athygli allan tímann og sannfærði þau öll um að Sauðárkrókur, Stykkishólmur og Vestmannaeyjar væru yndislegustu staðirnir á jarðríki. Ég get reyndar tekið undir með honum að bæjarstæðið í Stykkishólmi er gífurlega fallegt, en ég veit ekki með Krókinn.
Þrátt fyrir frábæra landkynningu var hún ekki markmið kynningarinnar heldur var markmið McMillan að fjalla um það að vera rithöfundur og ljósmyndari. Það gerði hann að sjálfsögðu einnig listavel og sýndi þeim fjölmörg dæmi um skrif sín.
Þetta reyndist stórskemmtileg stund að öllu leiti og ljóst að krakkarnir fengu þarna skemmtilegt innlegg í skólastarfið.