Það hlýtur bara að vera eitthvað að

Það hlýtur bara að vera eitthvað að

Ég hef ekki lesið greinina í heild í Morgunblaðinu í dag, enda hættur sem áskrifandi. Hins vegar er merkileg þessi fortíðarþrá, sem alltaf er hægt að koma að. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður og kemur reyndar fram í þessum kynningarstubb. Samfélagsleg umgjörð fyrir börn á Íslandi er ein sú allra besta í gjörvallri veröldinni ef ekki sú besta. Ég vil bæta við þessu. Á síðustu 10 árum hafa flestir foreldrar náð að mynda djúp og vönduð tilfinningatengsl við börn sín. Mikilvægur þáttur í því en alls ekki sá eini er fæðingarorlofið. Að reyna að mæla þessi tengsl með skeiðklukku er með ólíkindum heimskuleg aðferð.

Það eru sjálfsagt neikvæðir og jákvæðir þættir við það hvað börn á Íslandi eru sjálfstæð, láta ekki bjóða sér hvaða kjaftæði sem er og hafa hæfileika til að greina á milli þess sem þau vilja og þess sem þeim finnst rugl. En að börn almennt viti ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga er týpískt órökstutt bull. Það er nefnilega auðvelt að gagnrýna foreldra fyrir að standa sig ekki. Þeir eiga sem hópur ekki mjög auðvelt að svara fyrir sig.
Röksemdafærslan, “biðlistar á BUGL sanna að”, er á sama hátt röng. Greiningarverðbólgan er mjög hröð og mikill. Samfélagslega umgjörðin gerir kröfu um að allir standi sig og við leitum hjálpar af “minni” ástæðu en áður. Eftirspurnin hefur aukist, sem þýðir að fleiri fá hjálp, en enda ekki uppi sem tossar og villingar.

Þjónusta við börn er á háu stigi á Íslandi en samvera er af skornum skammti