Köllunarferli ELCA

Köllunarferli og menntun ELCA á einstaklingum til prestsþjónustu er um margt áhugavert. Hér á eftir fara nokkrir þættir sem skipta máli fyrir ferlið.

Þátttakendur

  • Einstaklingur sem leitar köllunar.
  • Söfnuður viðkomandi einstaklings.
  • Biskupsdæmi viðkomandi safnaðar.
  • Lútherska seminar-ið sem annast menntun einstaklingsins.
  • Starfshópur ELCA um köllun og menntun (Unit for Vocation and Education).

Köllunarferlið
Hvert biskupsdæmi hefur það sem kallað er Candidacy Committee sem samanstendur af einstaklingum frá söfnuði, biskupsdæmi og seminari. Sá hópur þarf að samþykkja köllun þátttakanda svo hann geti farið inn í prestsþátt námsins. Sú samþykkt fer fram áður en nám hefst. Ef samþykki er ekki til staðar getur nemandi hafið nám og reynt að herja á nefndina, að hleypa sér í prestsþátt námsins. Slíkt er þó víst ekki vænlegt til árangurs.

Hlutverk nefndarinnar eftir að hafa samþykkt einstaklinginn er að veita ráðgjöf og stuðning á leiðinni að vígðri þjónustu, meta einstaklinginn og stöðu hans með árlegum viðtölum meðan á námi stendur.

Þátttaka í söfnuði / Ministry in Context (MIC)
Strax og nám hefst er ætlast til að nemar fari inn í tveggja ára MIC prógram meðfram námi. Til að MIC þátturinn fáist samþykktur þarf einstaklingur á fyrsta ári í MIC:

  • Sækja guðsþjónustur og kirkjulega fræðslu reglubundið
  • Sækja a.m.k. fjórar guðsþjónustur í september/október í kirkjur sem koma til greina sem “MIC”-kirkjur fyrir viðkomandi.
  • Sækja a.m.k. fjórar guðsþjónustur utan lútherskra kirkjudeilda.
  • Sex viðtöl við umsjónarprest viðkomandi nema á vetrar- og vormisseri um hvað það merkir að vera í kirkjulegri þjónustu.
  • Þátttaka í kirkjulegri þjónustu a.m.k. mánaðarlega á vetrar- og vormisseri.
  • Vikuleg skráning þar sem nemi skráir það sem fram fer í “MIC” prógraminu.
  • Ársskýrsla að loknu fyrsta ári, þar sem nemi skráir hvað hann lærði í ferlinu.
  • Skýrsla frá umsjónarpresti um nema.

Á öðru ári er gert ráð fyrir:

  • 6-10 klst vikulega í ákveðnum “MIC”-söfnuði.
  • Gerð markmiðsskrár milli nema og safnaðar þar sem viðkomandi er.
  • Að minnsta kosti 1/2 mánaðarlegir fundir nema og umsjónarmanns.
  • Aðkoma annars árs nema að þjálfun fyrsta árs nema í “MIC”.
  • Vikuleg skráning og verkefnum og upplifunum tengdum “MIC”.
  • Mat á miðju ári og í lok prógrams.
  • Skýrsla um “critical incident” sem er notuð í innra mati í nemendahópi.
  • Mat hjá umsjónarfólki seminarsins.

Hér má sjá margt svipað og er verið að gera í samfylgdarkerfinu á Íslandi. Þ.e. þeim hluta sem kallast heimasöfnuður í íslenska kerfinu. Spurning hvort það megi notast við eitthvað af því sem hér er nefnt. Þó með þeim fyrirvara að guðfræðideildin heima er ekki hluti af kirkjunni ólíkt seminörum ELCA hér í BNA.

7 thoughts on “Köllunarferli ELCA”

  1. Munurinn á seminar og háskóla í Bandaríkjunum er að seminar er kostaður af kirkjunni, háskólinn ekki. Í Þýskalandi fer prestsmenntunin fram í Háskóla en reglulega þurfa prestefnin að fara í prédikaraseminör sem kirkjurnar reka.

  2. Áhugavert – í Württemberg minn kæri Carlos er guðfræðinámið við Háskólana – já – og svo þegar því er lokið þá fyrst tekur við ,,VIKARIAT” sem þýðir þátttaka í ýmsum námskeiðum á vegum kirkjunnar sjálfrar. Svo eru sumir svo heppnir að vera á ,,Stift” í Tuebingen til dæmis jafnhliða guðfræðinámi sem gefur kröftugri kirkjutengingu.

  3. Það sem ég rek augun í í þessu samhengi er notkun köllunarhugtaksins. Talað er um einstakling sem leitar köllunar, um köllunarferli og að samþykkja köllun þátttakanda. Er hér um einhvers konar píetisma að ræða, að viðkomandi verði að vera frelsaður til að komast í prestsnám? Eins og menn eflaust vita þá var köllunarhugtakið veraldlegt fyrir Luther (vocatio). Menn voru kallaðir til allra starfa, ekki preststarfsins sérstaklega.

  4. Það er píetistinn ég sem er sekur um að notast við köllunarhugtakið. Enska hugtakið er vocation. Ég reyndar lít svo á að hugtakið köllunarhugtakið í greininni hér að ofan sé veraldlegt, enda er hvergi vísað til innri köllunar í ferli ELCA. Hins vegar man ég úr starfsþjálfun þjóðkirkjunnar til djáknanáms að þar var talað um mikilvægi innri köllunar.

  5. Og ég man eftir fundi hjá Candidacy Committee í New England Synod ELCA fyrir mörgum árum síðan, þar sem mér varð á að tala um “qualifications for the job”. “It’s not a job, it’s a CALLING” sagði þá einn prestanna við borðið.

  6. Vocation er köllun á íslensku, en það getur svo sem vel verið veraldlegt. Hins vegar trúi ég því vel að íslenska þjóðkirkjan vinni með píetískt köllunarhugtak. Píetisminn hefur nefnilega náð miklu sterkari stöðu hér á landi en flestir halda. Þetta er niðurstaðan í bók minni, sem ég kenndi í kirkjusögukúrs nú á vormisseri í guðfræðideildinni. Einnig hef ég séð mjög sterk píetísk áhrif í Helgakveri. Þau áhrif birtast einnig í nýjustu námskrá fermingarstarfanna og í heiti fermingarbarnanna. Íslendingar eru því miklu meiri píetistar en þeir vilja viðurkenna.

Comments are closed.