Djáknar með kosningarétt

Ég hef áður glaðst yfir breytingum á lögum og starfsreglum um kirkjuþing, m.a. hér og hér. Sú ánægja er óbreytt þrátt fyrir vonbrigðin með tilnefningarnar. Annað sem hlýtur að kalla á umræður og vangaveltur er að þrátt fyrir að 28 djáknar hafi verið vígðir til starfa hér á landi síðan 1995, eru aðeins 8 þeirra með kosningarétt í kosningum til Kirkjuþings, hugsanlega reyndar 9.

Þetta merkir að tæplega þriðji hver djákni sem fengið hefur vígslu á síðustu 11 árum er í fullu starfi hjá þjóðkirkjunni. Þetta gefur í skin að djáknar séu almennt í hlutastörfum í kirkjunni og hafa af þeim sökum ekki kosningarétt eða vinni ekki lengur í störfum tengdum vígslu sinni.
Ef það er raunin að djáknar séu margir hverjir í hlutastörfum í kirkjunni hlýtur að vekja upp spurningar um vígsluskilning og köllun djákna til starfa. Eins kallar það á gagngera endurskoðun djáknastéttarinnar ef raunin er sú að stór hluti djákna hefur yfirgefið þann vettvang sem þeir voru vígðir til á 11 ára tímabili.

(Ég horfi hér viljandi, einvörðungu til djákna sem hafa tekið vígslu eftir að djáknanám var tekið upp á Íslandi. Þannig eru Unnur Anna og Ragnheiður ekki taldar hér með).

3 thoughts on “Djáknar með kosningarétt”

  1. Söfnuðirnir greiða sjálfir laun djákna (er það ekki?) og telja sig fæstir hafa efni á að ráða í fulla stöðu. Djáknar eru flestir konur, við miðjan aldur (ekki satt?), sem hentar kannski ágætlega að vera í hlutastarfi svo það kemur tæpast þrýstingur úr þeirri átt. Eru þetta “no-win” kringumstæður?

  2. Eg er á því að kirkjan átti sig ekki á að starf hennar er nær allt kærleiksþjónusta. Mér sýnist (sem nemi við guðfræðideild HÍ) að prestsmenntun felist aðallega í ritskýringu! Prestar ættu þá bara að halda sig við þann starfsvettvang að uppfræða. Víða er þó lítið gert af því. Nær væri að hafa djákna í 100% stöðu og tvo presta í 25% stöðu. Hin 75% yrði það fólk að finna sér úti í þjóðfélaginu og hefði bara gott af því að vera úti á akrinu, þar sem uppskeran er. Að vera prestur er ekki bara að bjarga uppskerunni í hús. Þá fá fleiri guðfræðingar vígslu og geta hætt að væla yfir því að fá ekki vígslu (því vígslan sjálf virðist vera stórt mál fyrir sumum). Af hverju hætta djáknarnir? Eru stöðurnar þeirra lagðar niður

  3. Já, ég held að það mætti alveg fara að endurskipuleggja guðfræðinámið og reyndar einnig sjálft kirkjustarfið. Hið talaða orð, þ.e. útleggingin, er mjög á undanhaldi vegna almennt slakrar kirkjusóknar og því kominn tími til að draga úr grískunámi og ritskýringarvinnu. Praktíska námið þarf að auka. En það er ekki alveg á hreinu hvað er praktískt, hvað það sé sem starfsmenn kirkna eiga að gera. Í hverju felst t.d. djáknstarfið, í heimsóknarþjónustu? Og hvað með kennara sem hafa áhuga á að starfa innan kirkjunnar við uppfræðsluna? Hafa þeir kost á stöðu við sitt hæfi, svo sem kateketar? Fermingarbatteríið veltir tugi milljóna, ef ekki hundrað, á hverju ári en þeir peningar fara flestir í úttroðna vasa prestanna. Af hverju ekki að koma á námi í kateketík til að fá starfsfólk í fermingarfræðsluna? Prestarnir fá þá meiri tíma til stjórnunar- og uppbyggingarstarfs innan safnaðanna … En þá þarf að auka slíkt nám innan deildarinnar og bjóða upp á endurmenntun á því sviði.

Comments are closed.