Ég og Anna Laufey gengum í fyrradag í gegnum Campus-inn hjá Capital University. Á miðju háskólasvæðinu er stytta af munki með Biblíu í hendi (líklega Lúther). Anna Laufey spurði hvernig maður þetta væri og ég útskýrði að munkar væru menn sem tæku ákvörðun um að giftast aldrei, en tileinkuðu líf sitt því að biðja, lesa í Bibliunni og segja öðrum frá Guði.
Í morgun var Anna Laufey að velta fyrir sér öðru máli, af hverju heitir baugfingur, baugfingur. Ég útskýrði að sjálfsögðu fyrir henni að baugur merkti hringur og á þessum fingri bæri fólk t.d. giftingarhringinn sinn. Þetta þótti henni merkilegt en sagði svo eitthvað á þessa leið:
Hann hérna, hann hérna, Styrmir hann er ekki giftur, en hann er samt ekki svona maður sem les í Biblíunni og ferðast um og segir öðrum frá er það?
Þessu tengt, það voru frábærar fréttir að fá í gær að Styrmir væri orðin starfsmaður KFUM og KFUK á Íslandi. Til hamingju með það KFUM og KFUK.
Einnig birt á hrafnar.net