Lútherskur

Ég fór í MicroCenter í dag til að kaupa myndbandsupptökuvél. Þar hitti ég duglegan sölumann. Sá spurði hvaðan ég kæmi og ég kynnti mig frá Íslandi. Viðbrögðin hans voru endalaus skemmtileg, enda sagði hann. “Nú þá hlýtur þú að vera lútherskur.” Ég játaði því og sagðist reyndar vera á leið í nám í Trinity Lutheran Seminary.
Þá kom auðvitað upp að langafi sölumannsins hafði verið prófessor þar og síðan fylgdi eitthvað af fjölskyldusögum, mamma hans prestur o.s.frv. En hvað um það, það er alltaf gaman að hitta fólk sem veit að Íslendingar eru lútherskir. Það gera ekki allir á Íslandi einu sinni.

20 thoughts on “Lútherskur”

  1. Þjóðkirkjan er lúthersk evangelísk ef ég man rétt, en það eru hreint ekki allir íslendingar sem tilheyra henni.

  2. Ég tek undir með annálaritaranum að þetta er ánægjulegt. Megi evangelísk-lúthersk kirkja ekki bara dafna á Íslandi um ókomna tíð heldur einnig um allan heim öllum til blessunar!

  3. Reyndar eru 90% líkur á því að Íslendingur sé skráður í lútherskt trúfélag. Ef við miðum við trú. Þá eru kristnir ekki fleiri en 40%, þannig að varla geta lútherskir verið fleiri en það.

  4. Það er mikilvægt að átta sig á því að það að vera lútherskur eða kristinn, svo við tökum klassísk dæmi, er ekki nauðsynlega tengt hugmyndum fólks um það hvort það telji sig trúað eða telji að Guð sé til eða ekki. Þannig kom fullyrðing sölumannsins í MicroCenter trú minni eða hugmyndum um G/guð lítið við. Ég tilheyrði einfaldlega sama klúbbi og hann. Svipað eins og katólikkar í BNA halda með NotreDame í Indiana í Fiesta Bowl í kvöld, hvort sem þeir trúa á guð eður ei.

  5. Hann var sem sagt að segja að þú værir skráður í lútherskt trúfélag. Ég er alveg sáttur við það. En finnst ykkur ekki að “kristinn” og “lútherskur” ættu að lýsa trúarskoðunum? Getur td einhver sem trúir ekki á guð verið kristinn að ykkar mati?

  6. Hugtökin kristinn og lútherskur hafa mismunandi merkingu eftir því hvort um er að ræða félagslega, trúarlega eða guðfræðilega umræðu. Auðvitað væri best að allir notuðu öll orð eins og ég vil. Íslendingar greindu á milli skírnar og nafngiftar o.s.frv. En þannig er það ekki og eitt af helstu verkefnum okkar til að þroskast og dafna er að búa við það að heimurinn er ekki einfaldur og svarthvítur.

  7. Og hvaða merkingu hefur “kristinn” í félagslegri, trúarlegri og guðfræðilegri umræðu? Ég hélt í sakleysi mínu að kristinn þýddi alltaf “sá sem trúir á að Jesú sé sonur guðs of frelsari….”. Vonandi geturðu frætt mig um allar þessar fjölbreytilegu merkingar orðsins “kristinn”.

  8. Nei, það get ég ekki, enda ekki verkefni þessa vefs míns að vera upplýsingaveita um mismunandi túlkun á hugtökum. Ég bendi hins vegar á vísindavef HÍ. Þú getur lagt inn fyrirspurnir þar.

  9. Skrítið svar hjá þér Elli, sérstaklega þar sem þú ert djákni í evangelísk-lúterskri kirkju og ættir að vita svarið. Samkvæmt lúterskri guðfræði er það að vera skírður hið sama og að vera kristin. Það þýðir þó alls ekki að skírnin sé óháð trú fólks eða hugmyndum um Guð eins og þú virðist halda. Skírt er inn í trúarsamfélag sem fræðir um trúna og um hvað það er að vera kristinn. Hins vegar þarf hinn kristni ekki endilega að vera játningartrúar eins og Hjalti heldur fram – “að Jesú sé sonur guðs og frelsari” – og virðist byggja á því fullyrðingu sína um að aðeins 40% þjóðarinnar sé kristin. Barnatrúin nægir og þar með að þú sért skráður í kristið trúfélag.

  10. “Samkvæmt lúterskri guðfræði er það að vera skírður hið sama og að vera kristin.” Það er augljóslega ekki rétt. Myndir þú td kalla ungabarn kristið? “…og virðist byggja á því fullyrðingu sína um að aðeins 40% þjóðarinnar sé kristin.” Reyndar grunar mig að þið séuð færri, en þið eruð örugglega ekki fleiri en 40% “Hins vegar þarf hinn kristni ekki endilega að vera játningartrúar eins og Hjalti heldur fram ” Þannig að einhver getur verið kristinn án þess að trúa því að Jesús hafi verið “sonur guðs og frelsari”, allt er nú til. “Barnatrúin nægir og þar með að þú sért skráður í kristið trúfélag.” Hvað áttu við með “barnatrú”? Ég hef verið að lesa gömul fermingarkver og verð að segja að ég sakna “gömlu góðu daganna” þegar trúmenn virðast hafa verið aðeins skýrari í afstöðu.

  11. Af hverju er það augljóslega ekki rétt? Já, ég kalla hvert það barn sem skírn er, kristið. Það er jú forsenda þjóðkirkjufyrirkomulagsins. Þú ert skemmtilega játningartrúaður Hjalti, rétt eins og strangtrúaðir kristnir eru. Barnatrú er sú trú sem fólk er almennt alið upp í án þess að hafa tekið ákveðna afstöðu til kenningar kirkjunnar. Sú trú er að engu leyti ómerkilegri en þeirra sem hæst hrópa um Krist sem guðs son og frelsara ;-)) Ég sakna líka “gömlu góðu daganna” þegar afstaða manna var skýrari en nú, en eflaust ekki á sama hátt og þú.

  12. Þannig að óskírður maður sem telur Jesús frelsara lífs síns, son Guðs og gerir hvaðeina til að fylgja kenningum hans er ekki kristinn?

  13. Ég hélt þú værir betri í rökfræði en þetta Gneisti. Ég sagði hvergi að aðeins sá skírði væri kristinn. Hins vegar er mjög óvenjulegt að kristinn maður sé ekki skírður! Fermingin er fyrst og fremst uppfræðsla í kristinni trú og sem slík mjög mikilvæg. Skírnin er nefnilega ekki óháð trú fólks eða hugmyndum um Guð eins og ég hef þegar tekið fram. Skírt er til trúarsamfélags sem fræðir um trúna og um hvað það er að vera kristinn, eins og gert er í fermingarfræðslunni.

  14. Er ég, skírður og fermdur, þá kristinn? 🙂 Og sá sem fæddist í Þjóðkirkjuna en trúir ekki á guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Trúir ekki á Jesú Krist….og svo framvegis. En trúir því að guð sé gott ópersónulegt afl, að mennirnir endurholdgist og svo framvegis. Er hann kristinn? Ef við myndum líkja þessu við kommúnisma. Þá væri þetta eins og að segja að lítið barn sem væri skráð í flokkinn væri kommúnismi, frjálshyggjumaðurinn með “barna-kommúnismann”. Fyndist þér það ekki skrýtin orðanotkun?

  15. Ef þú tekur meðvitaða afstöðu gegn kristindómi þá ertu auðvitað ekki kristinn, þó svo að líklegt sé að þú hafir mótast af kristnum hugmyndum. Hinar spurningarnar eru flóknari, ég játa því! Mér finnst þó trú manns sem alinn er upp í kristnum menningarheimi, skírður og fermdur osfrv, en trúir á guð sem gott ópersónulegt afl, að mennirnir endurholdgist o.s.frv., segja meira um (slaka) frammistöðu kirkjunnar við að kynna kristnar trúarhugmyndir, en um raunverulega trú viðkomandi. Um barnakommúnisma er það að segja að ekki er venja að tala um að einhver sé kommúnisti nema hann hafi þá pólitísku sannfæringu. Hins vegar voru allir Sovétmenn kommúnistar í augum Moggans, börn jafnt sem þeir sannfærðu. Svo kannski er það ekki svo skrítin orðnotkun.

  16. Það liggur í augum uppi að það að segja að einhver sé kristinn bara út af skírn er fáránleg nema frá þröngum sjónarhóli hins kristna. Mig minnir reyndar að Karl biskup hafi líka töluvert aðra skilgreiningu. En þú talar um að mótast af kristnum hugmyndum, hvaða hugmyndir eru það? Og hvað gerir þær kristnar? Flestar hugmyndir kristninnar eru leifar frá eldri siðum og hugsuðum. Kristnin sjálf er líka síbreytileg og mótast með samfélaginu. Hugmyndir kristninnar fyrir hundrað árum eru allt öðruvísi en hugmyndir kristninnar í dag. Þið hafið líka ykkar á milli ólíkar skoðanir á hvaða hugmyndir teljast kristnar.

  17. Þessi umræða er óviðkomandi færslunni í upphafi. Ef þið hafið áhuga er til fullt af spjallþráðum þar sem þið megið halda áfram. Þessum ummælahala er hér með lokað.

Comments are closed.