Það vekur athygli mína að í Stefnumótunarplaggi þjóðkirkjunnar eru samskot talin leið til fjáröflunar. Þannig er fórn guðsþjónustunnar sögð liður í stoðþjónustu kirkjunnar og flokkuð undir liðnum sértekjur og koma hvergi annars staðar fyrir. Þarna tel ég að séu grundvallarmistök á ferðinni.
Samskot eru og þurfa að vera skilgreind sem hluti helgihaldsins, á sama hátt og prédikunin, bænin og altarissakramentið. Með samskotum tökum við virkan þátt í guðsþjónustunni, gefum af gnægtum okkar, leggjum okkar skerf til samfélags trúaðra.
Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu. (Postulasagan 2.44-47)
Á sama hátt sakna ég þess að í nýjum bæklingi um guðsþjónustuna, sem er að mörgu leiti frábær og ástæða til að fagna honum, þá skortir útskýringu á samskotum (fórn) í guðsþjónustunni.
Með því að tala um samskotin sem fjáröflun en ekki messulið erum við að byggja undir ásakanir um að samskot séu sníkjur og betl. Markmið samskota á ekki að vera að ná inn ákveðinni upphæð á tilgreindum tíma. Markmiðið felst í því að gera söfnuðinum kleift að taka fullan þátt í lífi kirkjunnar sinnar. Hluti af kreppu kirkjunnar hefur verið þátttökuleysið og sér í lagi í guðsþjónustunni. Hvarvetna þar sem við förum sjáum við að samskotin eru leið til að gera söfnuðinn samábyrgan. Með því að gera lítið úr þessum þætti og skilgreina hann sem stoðþjónustu erum við að gera lítið úr samfélagi trúaðra í söfnuðinum.
Alveg sammála. Mjög sammála! Þetta er eitt af því sem við höfum að leiðarljósi við endurskoðun handbókarinnar. Þar er sérstaklega þrennt sem þarf að fá séráherslu og góða umfjöllun í söfnuðinum: samskotin (fórnin), friðarkveðjan og fyrirbænin.
Ég ætti auðvitað að vera hér jákvæður og hrífast með í stað þess að vera gagnrýninn og þannig kaldsinna. En ég get það því miður ekki. Til þess hef ég setið of oft í sænskum guðsþjónustum og upplifað þessa hörmung sem samskotin eru. Ég held það verði mun erfitt að sannfæra messugesti að hér sé um fórn að ræða en ekki betl. Enda fæ ég ekki séð fórnarhugsunina í því að gefa nokkra hundraðkalla eða þúsund krónur. Og til hvaða málefnis? Svíar eru duglegir í alls konar hjálparstarfi og gefa títt til þess, en íslenska kirkjan ekki. Nei, miskunnsemi þrái ég en ekki fórn. Fórnin í guðsþjónustunni er bænin. Í henni berum við gáfu okkar fram fyrir Guð. Aðra fórn þurfum við ekki. Vil ég minna á að stofnandi kirkjudeildar okkar, Lúter karlinn, hafnaði fórnarhugsuninni alfarið nema þá þeirri einu sönnu: fórn Krists á krossinum!
Alveg er ég sammála þér um þetta Torfi. Ég myndi telja að samskot guðsþjónustunnar séu góður farvegur fyrir einstaklinga til að gefa til hjálparstarfs, t.d. með því að skilyrða samskot hverrar guðsþjónustu við ákveðið málefni. Íslendingar hafa ekki lært að leggja sitt af mörkum fjárhagslega, m.a. vegna þess að kirkjan hefur ekki tekið þá félagslegu ábyrgð sem hún á að hafa. Samskot eru góð leið til að rækta þá ábyrgð. Rétt er það að samskot (fórn) hafa ekkert frelsunargildi, þar er fórn Krists á krossinum allt sem þarf. Við erum hins vegar kölluð til ábyrgðar hvort á öðru, erum þrælar allra manna. Þar þurfum við að leggja okkar af mörkum.
Mér sýnist þú illilega misskilja mig, Elli sæll! Ég er alls ekki sammála því að hafa samskot í guðsþjónustum. Það kemur auðvitað skýrt frá í fyrra innleggi mínu. Kirkjan þarf að finna annan farveg til að fá fólk til að gefa til hjálparstarfs en að hefja betl í messum. Sá farvegur er reyndar til, í Hjálparstarfi kirkjunnar, og verkar vel.
Blessaður Torfi, ég var reyndar að vísa til þess að ég væri sammála því sem ég vitna til, ekki heildartextans. Hins vegar er ég ekki sammála því að Hjálparstarf kirkjunnar virki vel, sér í lagi sá hluti starfseminnar að afla starfinu fastra tekna.